Lewis “Lew“ Wallace

Lewis Wallace eða „Lew“ eins og hann var oftast kallaður fæddist 10. apríl árið 1827 í Brookville, Indiana í Bandaríkjunum.  Foreldrar hans voru David og Esther Wallace.  David sem var lögfræðingur að mennt var kosinn fylkisstjóri í Indiana þegar Lewis var á barnsaldri.  Sjö ára gamall varð hann fyrir því áfalli að missa móður sína. 
Lewis hóf nám í lögfræði, en þegar stríð braust út í Mexíkó árið 1846 ákvað hann að leggja námið til hliðar og gerast sjálfboðaliði þar.  Var hann þar í rúmt ár, en hélt svo aftur heim og lauk lögfræðináminu árið 1849.  Árið 1852 kvæntist hann Susan Arnold Elston sem einnig átti eftir að vekja athygli sem farsæll rithöfundur.  Eignuðust þau einn dreng saman. 
Árið 1856 var Lewis kosinn á þing og flutti í kjölfarið til Crawfordsville þar sem hann bjó alla tíð síðan. 
Við upphaf borgarastyrjaldarinnar (þrælastríðsins) í Bandaríkjunum árið 1861 gekk Lewis í her Norðurríkjanna og var gerður að hershöfðingja, en vegna misskilnings hrökklaðist hann úr hernum í kjölfar orrustunnar um Shiloh.
Hann var þó beðinn um að snúa aftur ári síðar og var látinn skipuleggja varnir hers Norðurríkjanna gegn yfirvofandi innrás Sunnanmanna á Cincinnati.  Ekkert varð af árásinni en íbúar borgarinnar þökkuðu Wallace það og hylltu hann sem sinn björgunarmann.
Product photoAftur var leitað til hans þegar Washington borg var umsetin óvinaherjum árið 1864. Stóð hann þá vakt með sóma þangað til Ulysses Grant náði að koma til hans liðsauka. 

Eftir morðið á Abraham Lincoln forseta árið 1865 var Wallace skipaður sem einn dómenda í málaferlunum sem haldin voru yfir þeim sem stóðu að morðinu. 
Seinna það ár hætti hann í hernum og sneri sér að lögfræðistörfum.  Árið 1878 var hann svo skipaður fylkisstjóri í Nýju Mexíkó og hélt þeim starfa fram til 1881 er hann var gerður að sendifulltrúa Bandaríkjanna í Tyrklandi.  Var hann þar til 1885.
Lewis lést í Crawfordsville í Indiana 15. febrúar árið 1905.

Samfara öllum þeim ábyrgðastörfum sem Wallace hafði á höndum um ævina fann hann tíma fyrir skriftir.  Eftir hann liggur töluvert safn af ljóðum, eitt leikrit og þrjár  miklar sögulegar skáldsögur, en það einkum fyrir þær sem hann er kunnur og þá aðallega skáldsöguna Ben Húr sem hann gaf út árið 1880.  Fyrsta skáldsagan, The Fair God kom út árið 1873, og hefur henni lítið verið haldið á lofti.  Umgjörðin um hana eru landvinningar Spánverja í Mexíkó.  Þriðja skáldsaga hans The Prince of India kom út 1893 og naut ekki mikilla vinsælda.  Það er fyrst og fremst sagan Ben Húr sem hefur haldið nafni hans á lofti og það svo um munar.  Sögusvið hennar er Ísrael í þann tíma er Jesú er að boða þar sitt fagnaðarerindi.  Sagan segir sögu ættríks gyðings, Ben Húrs, sem glatar fjölskyldu sinni og frelsi er hann vegna misskilnings er sakaður um að hafa reynt að drepa rómverskan hershöfðingja.  Sagan er rómantísk en Wallace tekst þar á meistaralegan hátt að flétta atburðarásina í sögulegan veruleika.  Varð sagan strax mjög vinsæl og hefur verið þýdd á ótal tungumál.   Til marks um vinsældir hennar hefur hún verið færð upp sem leikrit og gerðar þrjár kvikmyndir eftir henni.  Það segir líka sitt að sagan er enn mikið lesin hundrað og þrjátíu árum eftir útkomu hennar.